Landsmót skáta 2021

Byggjum betri heim

Landsmót skáta verður haldið að Hömrum á Akureyri dagana 14.- 20. júlí 2021. Fálkaskátar og eldri koma saman og byggja betri heim með heimsmarkmið Sameinuðuþjóðanna að leiðarljósi. Á landsmóti fáum við tækifæri til að prófa nýja hluti, finna leiðir til að gera heiminn að betri stað, skemmta okkur konunglega og kynnast fólki frá öðrum stöðum á landinu og jafnvel frá öðrum löndum líka.

Komdu og vertu með í þessari ógleymanlegu og æsispennandi dagskrá að Hömrum!

 

Staðsetning

Hamrar á Akureyri

Hamrar, útivistar- og umhverfismiðstöð skáta á Akureyri er fallegt tjaldsvæði í útjaðri Akureyrar. Svæðið er í Kjarnaskógi, þar er góður andi og nóg af tækifærum fyrir skemmtilega dagskrá. Til dæmis er fullt af flottum gönguleiðum, svæði fyrir vatnadagskrá og skógurinn sem umlykur svæðið býður upp á marga möguleika. Landsmót skáta mun nýta sér þessa frábæru aðstöðu og við hlökkum til að sýna ykkur hvað þetta svæði hefur uppá að bjóða.
Landsmót skáta hefur oft verið haldið að Hömrum og tekist vel til, þetta skiptið verður ekkert öðruvísi. Við munum reisa magnaða tjaldbúð og búa þar saman í skátasamfélagi sem við sköpum eftir okkar höfði þar sem vinátta og gleði mun ráða ríkjum!

Mótssvæðið

Á landsmóti skáta 2021 verður tjaldsvæðinu skipt upp í 4 svæði þar sem þemun eru frumefnin 4: Eldur, Vatn, Jörð og Loft

Eldur og Vatn eru tjaldbúðir þátttakenda, þar munu félögin setja upp tjaldbúð og skreyta það í þema síns svæðis hvort sem það er vatn eða eldur.

Jörð skiptist í 2 dagskrársvæði innan mótssvæðisins, annarsvegar þar sem opin dagskrá verður í boði og hinsvegar dagskrárþorp. Önnur dagskrá fer fram utan svæðisins.

Loft eru síðan fjölskyldubúðir.

Kort af mótssvæðinu mun vera birt von bráðar.