Skátasumarið

Sumarið 2021 verða haldin 3 skátamót á Úlfljótsvatni í stað hins almenna Landsmóts. Ástæðan er sú að þrátt fyrir að bóluefni verði komið til landsins þá teljum við óábyrgt að skipuleggja og halda svo stóran viðburð á Úlfljótsvatni á þessum tíma. Við erum að skoða hvernig verður staðið að endurgreiðslu til þeirra sem voru búnir að greiða fullt gjald fyrir Landsmót 2020. Meira um það síðar.

Drekaskátar og eldri verða velkomnir á mótið og verður tekið sérstakt tillit til þeirra í dagskránni. Nánari upplýsingar munu berast á næstunni frá mótsstjórn sem vinnur að undirbúningi. Skátasumarið 2021 á Úlfljótsvatni verður mikið ævintýri fyrir skátana okkar. Það mun kosta 39.000 kr. Allur matur og dagskrá innifalið í verði.

Hugmyndin er sú að skátafélögum verði skipt í 3 hópa og mæti þau með alla sína skáta á Úlfljótsvatn á 5 daga skátamót þar sem áherslan verður lögð á útilíf, tjaldbúðarlíf og heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna. Þannig væru um 100 þátttakendur á svæðinu á hverju móti.

Mikilvægt er að félögin mæti með sína ungu skáta á þessi mót því lítið hefur verið um útilegur í vetur og við vitum öll hversu mikið útilífið og útilegurnar gefa okkur.

Hægt er að hafa samband og fá frekari upplýsingar með því að senda póst á skatasumarid@skatar.is.

Mótsstjórn

BÍS hefur fengið til liðs við sig þrjá öfluga mótsstjóra. Þetta eru ungir og öflugir skátar, sem muna nú sanka að sér fleiri skátum til að takast á við verkefnið. Mótsstjórnin mun fá aðstöðu í Skátamiðstöðinni til að vinna að verkefninu.

Mótstjórarnir eru:

Rafnar Friðriksson úr Skjöldungum
Ragnheiður Silja Kristjánsdóttir úr Garðbúum
Hrafnkell Úlfur Ragnarsson úr Fossbúum

Dagsetningar

Við byrjuðum á því að skipta félögunum upp í þrjá hópa, erindrekarnir voru okkur innan handar en þeir þekkja vel til félagana. Við fengum aðstoð frá hlutlausum aðila og drógum um dagsetningar. Við reyndum að gera þetta eftir okkar bestu getu.  Vonandi verða allir sáttir með úthlutunina og geta farið að skipuleggja sumarið

7.- 11 júlí: Skjöldungar, Landnemar, Klakkur, Eilífsbúar, Vífill, Heiðabúar, Mosverjar og Faxi

14.-18. júlí: Segull, Hafernir, Árbúar, Vogabúar, Hraunbúar, Fossbúar, Strókur og Örninn

21.-25. júlí: Kópar, Svanir, Borgarnes, Akranes, Stígandi, Garðbúar og Ægisbúar