Vetrarverkefni

Ert þú tilbúin(n) fyrir Leiðangurinn mikla?

Þegar haldið er í ævintýraferðir eins og á Landsmót skáta skiptir undirbúningurinn öllu máli. Gefin hafa verið út verkefni sem munu hjálpa flokknum að búa sig undir ævintýrið.

Verkefnum er skipt niður eftir þemum dagskrárveralda. Fyrir hverja dagskrárveröld eru þrjú verkefni sem flokkurinn valið um og leyst í sameiningu. Flokkurinn tekur myndir af því þegar verkefið er leyst sem eru síðan sendar til Landsmóts skáta. Með myndunum þurfa að fylgja nöfn flokksmeðlina og stutt frásögn af verkefninu, hvað kom á óvart og hvað var skemmtilegt.

Þeir flokkar sem að skila inn verkefnum fyrir alla skiladagana munu fá ofið merki í viðurkenningu á Landsmóti skáta. Ljúka þarf að lágmarki einu verkefni úr hverri dagskrárveröld. Einnig munu þeir flokkar sem skila inn verkefnum fara í pott en svo verða þrír flokkar dregnir út sem að fá verðlaun frá Skátabúðinni.

Myndir og frásagnir eru sendar á: vetur@skatar.is

Dagsetningar:

21. jan verkefni birt
15. feb skiladagur
14. mar skiladagur
11. apr skiladagur
9. maí skiladagur
30. maí skiladagur

Árný Björnsdóttir
Árný Björnsdóttir
1. Veiðiferð
Saman mun flokkurinn skipuleggja veiðiferð að næsta vatni eða niður á höfn. Flokkur þarf að hafa í huga hvað þarf að taka með, hlutir eins og veiðistöng og beita mega ekki gleymast. Það getur verið gaman að prófa að búa til sína eigin veiðistöng.

2. Flekalíkan
Flokkurinn setur saman líkan af flekum.Hér er um að gera að nýta hugmyndaflugið og prófa sig áfram með mismunandi efni sem hægt er að nýta í smíðina

3. Sundferð
Samvinna skiptir miklu máli í skátastarfi. Flokkurinn fer saman í sund og syndir 1,5 km Allir í flokknum þurfa að hjálpast að svo að takmarkið náist. Sundið má klára með frjálsri aðferð og skemmtilegt getur verið að prófa nýjar aðferðir. Í þessu verkefni þarf ekki að taka myndir á meðan verkefnið er leyst, nóg er að taka mynd eftir sundferðina.

1. Eldað á Primus
Í útilegum er gott að kunna að elda með primus. Máltíðirnar geta verið flóknar eða einfaldar, allt eftir því hvað hungrið segir til um. Flokkurinn eldar saman eina máltíð, nú er tækifærið til að fullkomna núðlusúpuna.

2. Kveikið varðeld
Varðeldagerð getur verið flókin en að mörgu er að huga. Flokkurinn hjálpast að við að búa til varðeld, mikilvægt er að huga að öllum öryggisatriðum.

3. Súrringar
Skemmtilegar trönubyggingar gefa lífinu lit og gaman er fyrir flokkinn að geta státað sig af flottum trönubyggingum á Landsmóti skáta. Hér er tækifæri til að æfa sig að súrra saman trönubyggingar og sjá fyrir sér hvernig hliðið á að vera inn á félagasvæðið.

1. Víkingaklæði
Hvernig voru víkingarnir klæddir? Flokkurinn þarf að vinna saman að því að finna svarið við þessari spurningu. Svo þarf að klæða tvo eða fleiri flokksmeðlimi upp sem víkinga. Takið mynd af víkingum flokksins í umhverfi sem sönnum víkingum sæmir.

2. Skjöldur og sverð
Allir alvöru víkingar þurfa að eiga skjöld og sverð. Til að undarbúa sig fyrir Víkingaveröld á Landsmóti skáta getur verið nauðsynlegt að eiga slíkan búnað. Flokkurinn vinnur saman að því að búa til skildi og sverð fyrir alla flokksmeðlimi.

3. Kyndlagerð
Á tímum víkinga var aðgangur að rafmagni langt frá því sem við þekkjum í dag. Eldur var nýttur til að lýsa upp vistarverur og einnig til að hita þær upp. Flokkurinn býr sér til kyndla sem hægt er að nota til að lýsa upp umhverfið.

1. Píramídar
Egyptaland er þekkt fyrir píramídana, vitið þið hvað þeir eru margir? Eftir að flokkurinn hefur komist að svarinu er tækifæri til að reisa eigin píramída. Flokkurinn myndar píramída úr flokksmeðlimum, en ekki gleyma að hafa einhvern til taks til að taka myndina.

2. Vatnsleikur
Það er auðvelt að skrúfa frá vatninu í krananum og fylla eina vatnsflösku. Hvað ef að það þyrfti að fylla lítersflösku með matskeið? Það er um að gera að prófa sig áfram, hvernig er best að leysa þetta verkefni? Hér reynir á samvinnu og þolinmæði flokksmeðlima. Það þarf að fylla eins lítra flösku af vatni með því að nota matskeið, flaskan þarf að vera í 10 metra fjarlægð frá krananum.

3. Fuglaskoðun
Fuglaskoðun er náttúruskoðun, útivist, tómstundasmiðja og áhugamál. Fugla er hægt að skoða nánast hvar og hvenar sem er, án mikillar fyrirhafnar. Finnið þrjár fuglategundir í nærumhverfi flokksins og takið mynd þeim, finnið svo út hvaða tegundir þið funduð.

1. Fjallganga
Það er fátt sem jafnast á við ferska fjallaloftið. Flokkurinn skipuleggur saman ferð á fell eða fjall í nágrenninu. Þegar á topinn er komið er nauðsynlegt að taka skemmtilega mynd af öllum flokknum.

2. Strætóferð
Skáti er náttúruvinur og í ferðlaögum skal skátinn alltaf huga að sínu nærumhverfi. Strætóferð er skemmtilegur ferðamáti sem getur endað með skemmtilegu ævintýri. Flokkurinn skoðar saman strætóáætlunina og fer svo í ferð með strætó.

3. Heimabær flokksins
Flokkurinn fer í leiðangur um heimabæinn sinn og heimsækir spennandi staði á leiðinni. Á leiðinni þarf flokkurinn að gera góðverk sem geta verið mjög fjölbreytt. Hægt er sem dæmi að safna saman rusli eða hjálpa til að við snjómokstur.