Undraland við Úlfljótsvatnið blátt

Útilífsmiðstöð skáta er staðsett við Úlfjótsvatn en það er í Grímsnes- og Grafningshreppi, sunnan Þingvallavatns. Útilífsmiðstöðin er í eigu Bandalags íslenskra skáta og hefur verið í stöðugri uppbyggingu síðan 1941. Á Úlfljótsvatni er eitt fullkomnasta tjaldsvæði landsins og hafa skátar byggt upp miðstöðina með það í huga að unnt sé að halda þar fjölmenn útilífsmót fyrir þúsundir þátttakenda. Í því felst m.a. góðar tjaldflatir, hreinlætisaðstaða og mjög fjölbreytt afþreying. Á Úlfljótsvatni er starfsemi allan ársins hring og má þar m.a. nefna sumabúðir á sumrin og skólabúðir á veturna og tekur hún nú á móti þúsundum gesta allt árið um kring.

Margvíslegir viðburðir á vegum skátanna eru haldnir á Úlfljótsvatni, s.s. námskeiðahald, æfingar, ráðstefnur o.þ.h., auk þess sem skátar fara þangað í útilegur allt árið um kring, í skálunum á veturna og tjöldum á sumrin. Skátamót, stærri og smærri, eru reglulega haldin á Úlfljótsvatni og var Landsmót skáta síðast haldið þar árið 2016.

Við Úlfljótsvatn skartar náttúran sínu fegursta með ýmsum tækifærum til útivistar á borð við fjallgöngur, vatnasport og margt fleira, auk þess sem þarna er að finna hæsta klifurturn og einn skemmtilegasta “folf” völl landsins svo eitthvað sé nefnt.