Á norðurslóð

Á mótinu kynnumst við töfrandi heimi Hamra og nágrennis. Þar njótum við útivistar og ævintýra. Þemað mun leiða okkur út í náttúruna þar sem við lærum að bjarga okkur og upplifum dýralífið, gróðurinn, veðurfar, landslagið og samfélagið í kringum okkur. En við skoðum einnig áhrif hlýnunar jarðar á svæðið og kynnumst sjálfbærni á norðlægum slóðum en það getum við tengt inn á heimsmarkmið sameinuðu þjóðanna. Við erum innan þess svæðis sem flokkast sem Norðurheimskautasvæðið en Hamrar eru ein nyrsta skátamiðstöð í heimi.

Heimsmarkmiðin sem við munum tengja inná:

Nr. 13 – Aðgerðir í loftlagsmálum

Hlýnun jarðar sést vel á norðurslóðum, jöklar bráðna, hafís minnkar og vistkerfi breytist. Þetta hefur áhrif á dýralíf, samgöngur og allt líf á svæðinu. 

Nr. 14 – Líf í vatni

Þegar hafísinn minnkar opnast nýjar siglingaleiðir sem veita aðgang að auðlindum, það getur bæði skapað tækifæri og vandamál.

Nr. 15 – Líf á landi

Á norðurslóðum lifa dýr sem hafa aðlagast kulda og ís. Hér á landi eru það t.d. selir, hvalir, hreindýr og fjölbreyttir fuglar. 

Einnig má finna hér sérstakar plöntur sem þrífast vel í harðneskjulegu loftslagi og má þar nefna kjarr, mosa, fléttur, gras og lágan gróður sem þolir kulda, snjó og stutt sumur. 

Sumarsólin – Á norðurslóðum sest sólin ekki á sumrin. Það gefur plöntum og dýrum einstakt tækifæri á að nýta ljósið allan sólahringinn. Á veturnar getur verið myrkur vikum eða mánuðum saman.

Nr. 16 – Friður og réttlæti.     
Nr. 17 – Samvinna um markmiðin

Samvinna þjóða er mikilvæg og vinna þjóðirnar á norðurslóðum saman að friði, öryggi og verndun náttúrunnar. Ísland er virkur þátttakandi í Norðurskautsráðinu sem er þessi sameiginlegi vettvangur þjóðanna. 

Akureyri er skilgreint sem miðstöð þekkingar á norðurslóðum. Þar er Háskólinn á Akureyri með rannsóknir og nám í tengdum fræðum og margar stofnanir sem vinna með alþjóðlegum samstarfsaðilum. 

Hvaða máli skiptir þetta skáta?

Skátar leggja áherslu á náttúruvernd og samvinnu sem einnig eru lykilatriði á norðurslóðum.

Í skátastarfi er lögð áhersla á að tengja ungt fólk inn í samfélagið og gera þau að virkum samfélagsþegnum sem hafa áhrif á umhverfið sitt. Skátar tileinka sér sjálfbærar venjur og fræðast um málefnið og miðla þekkingu áfram. Þetta eru einnig sameiginleg markmið allra þjóða norðurslóða um að vernda jörðina og tryggja betri framtíð. 

Norðurslóðir minna okkur á hversu viðkvæm og brothætt náttúran er og hversu mikilvægt er að standa saman um að vernda hana.