Flokkakeppni

Fram að Landsmóti verða send út mánaðarleg verkefni sem flokkar leysa saman með foringjum sínum. Hvert verkefni á að styrkja hópinn, þjálfa nýja færni og undirbúa flokkinn fyrir lokakeppnina sem fer fram á Landsmóti 2026. 

Verkefnin eru 7-8 fram að móti. 

Það er ekki skylda að skila öllum verkefnum en því fleiri verkefni sem flokkurinn leysir og skilar því meira forskot fær hann í stigafjölda. 

Stigagjöf

  • Hvert verkefni er metið eftir matskvarða og þannig safna flokkarnir stigum. 
  • Fyrir þátttöku fær flokkurinn 1 stig. 
  • Í lokakeppninni verður keppt í fjölbreyttum þrautum.
  • Flokkurinn með hæstu heildarstigin hlýtur vegleg skinn og verðlaun.

Skil á verkefnum

Verkefnum skal skila til dagskrárnefndar á netfangið johann@skatarnir.is

Hægt er að skila í formi mynda, myndbanda, texta eða með öðrum frumlegum hætti. 

Mikilvægt er að sýna að verkefnið hafi verið frakvæmt og hver tóku þátt í því. 

Við skil er mikilvægt að fram komi:

  • Nafn flokks
  • Skátafélag
  • Aldursbil
Verkefni 1 - Eldurinn lifir

Fyrsta verkefnið felst í því að kveikja eldinn.
Flokkurinn þarf að sýna fram á færni í eldamennsku, brunavörnum og eldgerð.

Verkefnalýsing
Flokkurinn á að:

  • sýna fram á þekkingu á mismunandi gerðum eldiviðar – hvaða timbur hentar til uppkveikju, matreiðslu og kyndingar.
  • Útskýra og framkvæma viðeigandi brunavarnir og hvernig best er að tryggja öruggt umhverfi fyrir eld.
  • Hlaða mismunandi bálkesti, bæði til varðelds og til matreiðslu.
  • Geta tálgað spæni til uppkveikju og kveikt eld án þess að nota uppkveikilög eða aðra aðstoð.


Kröfur eftir aldri:

  • Drótt- og rekkaskátar sýna þrjár ólíkar aðferðir til að kveikja eld án eldspýta eða kveikjara.
  • Rekkaskátar útbúa eldstæði og útskýra mikilvægi loftflæðis fyrir góða brennslu.

Ábending til foringja
Hvetjið flokkinn til að skipuleggja verkefnið þannig að öll hafi hlutverk, allt frá efnissöfnun til framkvæmdar og kynningar.
Markmiðið er ekki aðeins að kveikja eld, heldur læra að vinna saman, undirbúa sig fyrir mótið og hafa gaman.