Skátasumarið

Sumarið 2021 verða haldin 3 skátamót á Úlfljótsvatni í stað hins almenna Landsmóts! Drekaskátar og eldri verða velkomnir á mótið og verður tekið sérstakt tillit til þeirra í dagskránni. Skátasumarið 2021 á Úlfljótsvatni verður mikið ævintýri fyrir skátana okkar. Það mun kosta 39.000 kr. Allur matur og dagskrá innifalið í verði. Skráningarfrestur er til og með 14. maí 2021.

Hugmyndin er sú að skátafélögum verði skipt í 3 hópa og mæti þau með alla sína skáta á Úlfljótsvatn á 5 daga skátamót þar sem áherslan verður lögð á útilíf, tjaldbúðarlíf og heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna. Þannig væru um 100 þátttakendur á svæðinu á hverju móti.

Mikilvægt er að félögin mæti með sína ungu skáta á þessi mót því lítið hefur verið um útilegur í vetur og við vitum öll hversu mikið útilífið og útilegurnar gefa okkur. Hægt er að hafa samband og fá frekari upplýsingar með því að senda póst á skatasumarid@skatar.is.

Ýmsar fréttir af undirbúningi mótsins munu birtast hér

Dagskrá

Þema mótsins að þessu sinni verður galdrar! Við hvetjum ykkur til að hafa þemað í huga við undirbúning mótsins. Hvaða galdraverur verðið þið? Verðið þið álfar, dvergar, menn, galdrafólk, huldufólk, tröll eða drekar? Þið getið prófað að búa til galdraseiði, lært galdraþulur og búið ykkur til galdraskykkjur.

Dagskráin á mótinu verður ekki af verri endanum en þar verða Heimsmarkmiðin höfð í hávegum ásamt öðrum spennandi verkefnum. Jarðgerðarfélagið ætlar að mæta og kenna okkur ýmislegt tengt lífrænum úrgangi og jarðgerð. Við ætlum einnig að vinna í okkur sjálfum og leyfa okkur að vera eins og við erum hvort sem við erum álfar, tröll eða menn! Að auki verður allskonar Úlfljótsvatnsdagskrá í boði s.s. klifur, bátar, bogfimi, gagabolti, tjaldbúðavinna og margt margt fleira.